Þátttaka fyrirtækja í útboðum erlendis

 

 

Íslensk fyrirtæki hafa í gegnum árin sótt verkefni til opinberra aðila erlendis. Í kjölfar efnahagshrunsins hafa æ fleiri fyrirtæki horft til nágrannalandanna og mörg hver náð góðum árangri í útboðum opinberra aðila þar.


Samkvæmt könnun sem gerð var meðal smærri fyrirtækja í Evrópu og birt var í lok ársins 2010, kemur fram að fyrir utan eigið heimaland, sæki fyrirtæki einna helst í að taka þátt í útboðum í nágrannalöndum sínum. Þannig leita austurrísk fyrirtæki tækifæra í Þýskalandi, Finnar til Svíþjóðar og Belgar til Frakklands. Það er því ekki undarlegt að íslensk fyrirtæki leiti helst verkefna í Noregi og á hinum Norðurlöndunum.


Samkvæmt skýrslunni eru smáar þjóðir talsvert líklegri til að semja við erlend fyrirtæki en þær sem stærri eru. Þannig semja þjóðir eins og Malta, Lúxemborg og Írland í ca 15% tilvika við erlend fyrirtæki á meðan hlutfallið hjá stórþjóðum eins og Frökkum og Pólverjum er undir 1%.


Aðeins um 1,5% allra samninga yfir viðmiðunarmörkum eru gerðir beint við erlend fyrirtæki, að jafngildi 3,7% af heildarverðmæti þessara samninga. Það þýðir þó ekki að fyrirtæki eigi ekki möguleika á að ná í verkefni erlendis, heldur að það er erfitt fyrir þau að fara ein inn á nýjan markað. Mun líklegra til árangurs er að fara í samstarfi við aðila sem er staðsettur á viðkomandi markaði eða jafnvel í gegnum dótturfyrirtæki/útibú. Þannig næst besta tengingin inn á markaðinn.

 

Samkvæmt skýrslunni felast tækifærin helst:

hjá nágrannaþjóðunum þar sem tungumál og menning er svipuð
hjá smærri þjóðum sem semja hlutfallslega oftar við erlenda seljendur en stórþjóðir
í samstarfi við erlenda samstarfsaðila eða dótturfyrirtæki
hjá opinberum veitufyrirtækjum sem eru duglegust opinberra aðila við að semja við erlenda seljendur

 

Þýsk, austurrísk, eistnesk og kýpversk fyrirtæki hafa samkvæmt skýrslunni náð bestum árangri fyrirtækja í Evrópu í útboðum erlendis.

 

Heimild: Evaluation of SMEs’ access to public procurement markets in the EU-final report 2010