Tækifæri

 

 

Með EES samningnum opnaðist innri markaður ESB og fjölmörg tækifæri því samfara. Útflutningsráð hóf árið 1994 samstarf við fyrirtæki og stofnanir í Evrópu með það að markmiði að aðstoða lítil og meðalstór fyrirtæki við að nýta tækifæri til viðskipta á innri markaði EES. Íslandsstofa hefur nú tekið við keflinu og heldur samstarfinu áfram undir merkjum Enterprise Europe Network.


Í gegnum þetta Evrópusamstarf höfum við í mörg ár fylgst með áherslu ESB á að auka þátttöku smærri fyrirtækja í opinberum útboðum. Í júní 2008 samþykkti ESB sk. Small Business Act. Þar eru settar fram almennar leiðbeiningar um hvernig aðildarlöndin ættu að styðja við bakið á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Meðal annars koma þar fram tillögur um hvernig auðvelda megi  fyrirtækjum þátttöku í opinberum útboðum.


Þar er lagt til að opnaðar séu rafrænar vefgáttir þar sem sækja má upplýsingar um útboð, öll nauðsynleg skjöl og skila inn tilboðum á rafrænu formi. Einnig eru kaupendur hvattir til að brjóta verkefni upp í smærri einingar til að auðvelda minni fyrirtækjum að taka þátt.


Hér á landi hafa fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum reynslu af þátttöku í útboðum innanlands. Í öðrum ríkjum Evrópu hefur áhugi fyrirtækja á að sækja verkefni til opinberra aðila aukist í kjölfar efnahagshrunsins. Í opinbera geiranum ríkir ákveðinn stöðugleiki og menn geta verið nokkuð öruggir um greiðslu fyrir sín verk, vöru eða þjónustu. Efnahagshrunið og samdráttur hér innanlands hefur aukið mjög áhuga íslenskra fyrirtækja á að leita fyrir sér um verkefni erlendis, bæði hjá sveitarfélögum, opinberum stofnunum og fyrirtækjum og hjá alþjóðastofnunum.


Það er okkar von að upplýsingarnar á þessum vef geti hjálpað þessum fyrirtækjum, ekki aðeins með upplýsingum um hvar tækifærin er að finna, heldur einnig með góðum ráðum og ábendingum.